skip to Main Content
Skrifstofa SSF - Nethyl 2E - 110 Reykjavík - 540 6100 - [email protected]

VERÐLAGSFORSENDUR NÚGILDANDI KJARASAMNINGS

VERÐLAGSFORSENDUR NÚGILDANDI KJARASAMNINGS

Frá og með ágústmánuði 2024 fer fyrsta og eitt helsta forsenduákvæði núgildandi kjarasamnings að tikka. Þetta forsenduákvæði kveður á um að ársverðbólga í ágúst 2025 mælist ekki meiri en 4,95%. Reyndar er hliðarskilyrði að ef verðbólga á 6 mánaða tímabili frá mars til ágúst 2025 verði 4,7% eða lægri miðað við árshraða teljist forsendan hafa staðist. Þarna er verið að vísa til þess að verðbólga sé hugsanlega á mun hraðari ferð niður á við á seinni hluta tímabilsins en á þeim fyrri.

Í ágúst 2024 er gildi vísitölu neysluverðs 633,8. Verði þetta gildi hærra en 655,2 í ágúst 2025 hafa verðlagsforsendur brugðist, nema ofangreint hliðarskilyrði komi til hjálpar. Ársverðbólgan má ekki vera meiri en 4,95%, en hún er 6% nú og hefur dansað í kringum það gildi undanfarna mánuði. Þetta þýðir að meðalhækkun vísitölunnar á mánuði á tímabilinu má ekki vera meiri en rétt rúm 0,4%. Hækkunin nú í ágúst var óvenju lág, eða 0,09%, en meðalhækkun næstu sex mánuði þar á undan var 0,7%. Það þarf því nokkuð mikið til ef forsendan á að nást.

Samkvæmt samningunum mun sérstök launa- og forsendunefnd skipuð fulltrúm frá SA og ASÍ leggja mat á forsendur og eftir atvikum semja um viðbrögð við forsendubresti og stuðla að því að samningar haldi gildi sínu. Þetta formlega mat mun fara fram í september 2025 og þá fer jafnframt mat á því hvort þær lagabreytingar sem ríkisstjórnin lofaði við samningsgerðina hafi náð fram að ganga.

Náist ekki samkomulag er hugsanlegt að samningar falli úr gildi 31. október 2025. Náist samkomulag að ári mun sama ferli fara af stað miðað við ágúst 2026 og þá má ársverðbólgan ekki vera meiri en 4,7%.

Ari Skúlason

Formaður SSF

Search