Viðvarandi fækkun útibúa viðskiptabankanna og starfsfólks
Undanfarin ár hefur útibúum viðskiptabankanna fækkað verulega. Í árslok 2008 voru 146 útibú viðskiptabanka starfrækt en þeim hefur fækkað jafnt og þétt niður í 84 útibú eins og þau eru nú. Mikil fækkun hefur átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu undanfarin 6 ár, úr 37 útibúum í 21. Þá hefur útibúum haldið áfram að fækka undanfarin ár utan höfuðborgarsvæðisins en þau voru 99 talsins árið 2008 en eru nú 63.
Vert er að taka það fram að útibúum tiltekinna banka á myndinni hefur fjölgað, haldist í stað eða fækkað með eða þrátt fyrir yfirtöku á Sparisjóðum t.d. á Suðurlandi, Austurlandi, Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra og Vestfjörðum.
Einnig þarf að taka tillit til þess að í sumum tilfellum er um að ræða afgreiðslustaði bankanna en ekki útibú. Á sumum afgreiðslustöðum er ekki boðið upp á jafnmikla þjónustu og útibúum t.a.m. á höfuðborgarsvæðinu og hafa í sumum tilfellum skertan opnunartíma.
Áframhaldandi krafa um hagræðingu
Boðuð hefur verið frekari hagræðing innan bankanna þrátt fyrir þá staðreynd að fjöldi starfsmanna sé nú kominn niður fyrir þann fjölda sem starfaði að meðaltali hjá samningsaðilum SSF á árunum 1985-2005. Tækni og sjálfvirkni spila þar visst hlutverk í rekstri fjármálafyrirtækja en að nánast allt greiðslumiðlunarkerfi landsmanna fer í dag í gegnum aðildarfyrirtæki SSF, en það var ekki fyrir 20-30 árum. Á fyrirtækin og starfsmenn eru síðan á hverju ári settar auknar kröfur um öryggi þjónustu, víðtækari ráðgjöf og fjölbreytta upplýsingagjöf til eftirlitsaðila á vegum íslenska ríkisins.
Félagsmönnum fækkar
Árið 2007 voru starfsmenn sem unnu við viðskiptabankastarfsemi bankanna 4326 talsins (1450 hjá Landsbankanum, 1076 hjá Kaupþingi, um 1200 hjá Íslandsbanka og um 600 hjá Sparisjóðunum). Í dag er heildarfjöldi þeirra sem starfa í viðskiptabankastarfsemi bankanna orðnir 2850 starfsmenn (um 1000 hjá Landsbankanum, 900 hjá Arion banka, um 900 hjá Íslandsbanka og um 50 hjá Sparisjóðunum.
Það sést vel á þessum tölum að fækkunin hefur verið gríðarleg á undanförnum árum og mikilvægt að stjórnendur og ráðamenn geri sér grein fyrir þeirri hagræðingu sem þegar hefur átt sér stað áður en ríkari krafa um enn frekari hagræðingu er gerð.