Beint í efni

Þú getur skoðað launaþróun, launaskrið, verðbólgu, launavísitölur Hagstofu Íslands (t.d. vísitölur launa á almennum vinnumarkaði eftir atvinnugrein og mánuðum þar sem tölur eru um fjármálafyrirtæki) og aðrar upplýsingar sem hjálpa þér að meta hvaða kröfur eru raunhæfar og hvaða hlutlægu viðmið þú getur notað til að rökstyðja óskir þínar um launahækkun. En að sjálfsögðu er það vinnustaðurinn og nánasta umhverfi sem skiptir höfuðmáli þegar gengið er til samningaviðræðna um kaup og kjör. 

Farsælt væri að skoða þróun á milli launakannana SSF. Hafa laun þín hækkað miðað við meðaltal allra í könnuninni og/eða miðað við álíka starf og þú sinnir? Á milli launakannana 2023 og 2025 hækkuðu meðallaun um 8,3%. Laun viðskiptastjóra einstaklinga hækkuðu um 11,9%.
Hve mikið hækkuðu þín laun á sama tíma? 

Launatöflur aftarlega í nýrri launakönnun SSF (bls. 147 og 148 í könnuninni frá 2025) eru mjög góð tæki til þess að átta sig hvaða stöðu maður er í. Þar getur þú valið starf sem líkist þínu starfi mest og skoðað upphæðir og dreifingar. Þar má sjá meðaltöl, miðtölu og dreifingartölur. Þú getur t.d. spurt sjálfa þig: Ætti ég að vera ca. í meðaltali hópsins miðað við t.d. reynslu mína, þekkingu og starfsfaldur eða ætti ég að vera við 75% mörkin (nr. 75 í 100 manna hópi)? Þarna getur þú notað allar þær breytur, sem þú miðar við til þess að staðsetja þig sem starfsmann, til þess að búa til raunhæfa launakröfu og rökstutt hana vel. 

Ef þú hefur hlutlæg viðmið til rökstuðnings fyrir tilboði þínu um launahækkun styrkir þú stöðu þína til samninga verulega. Skoðaðu endilega kynningarefni um launaviðtalið sem við höfum sett saman.

Með því að rýna vel í niðurstöður könnunarinnar getur þú búið þér til nokkuð nákvæma hugmynd um hvað þú vilt og sýnt fram á að það sé raunhæft. Súlurnar lengst til hægri
í töflunni fyrir ofan sýna vel dreifinguna í hverjum hópi fyrir sig.